11. apríl 2015

Það var þetta með tönnina

Um páskana skruppum við fjölskyldan niður á Maclear höfðann við Malaví-vatn. Tilgangurinn var tvennskonar, að kafa og að taka lífinu með ró. Fórum á Danforth Yachting, sem er flottheitastaður þar sem maður þarf eiginlega bara að muna að anda. Meira og minna er séð um allt annað fyrir mann. Við vorum á þessum stað fyrir tæplega ári síðan og sagði ég frá þeirri draumahelgi þá.

Gaman var að komast að kafa á nýjan leik, en það eru liðnir fjórir mánuðir síðan við feðgarnir skelltum okkur síðast á kaf. Mikið rigndi í Malaví í janúar og febrúar og þá gruggast vatnið svo skyggnið verður miklu lakara.

Rúnar Atli lenti í ævintýri. Hann varð rosalega fúll, en ég hugsa að hann sjái síðar bjartar hliðar á atvikinu. Þannig var að einn tönn hjá honum var laus. Búin að vera laus nokkuð lengi og farin að angra hann svolítið. Hann vildi þó ekki fara út í neinar kúnstir til að losa hana, því tannlæknirinn á Íslandi sagði honum einhvern tímann að best væri að tennurnar fengju að losna þegar þær væru sjálfar tilbúnar.

Ævintýrið gerðist í köfun. Við fórum niður ásamt leiðsögumanni og gekk bara ágætlega. Rúnar Atli var aðeins ryðgaður í upphafi, en ekkert skrýtið við það. Svo var hann kominn í gírinn og farinn að skoða fiska og steina og annað sem er þarna. Við vorum á tæplega 10 metra dýpi og ég var að fikta við myndavélina mína. Þá sé ég að Rúnar Atli er í einhverju fári. Búinn að taka út úr sér munnstykkið - sem hann gerir reyndar stundum og kann alveg - og er eitthvað að teygja hendina niður á við. Fyrir einhverja rælni smellti ég einmitt þarna af einni mynd.


Þarna er guttinn með munnstykkið í vinstri hönd og teygir hina niður. Aðeins grillir í hönd leiðsögumannsins sem var kominn til að athuga hvort eitthvað væri að. Ég man að ég sá eitthvað hvítt síga í rólegheitum niður meðfram klettinum sem við vorum við. Einhverjar sekúndur liðu áður en ég fattaði að einmitt á þessum stað hafði tönnin ákveðið að skilja við Rúnar Atla. Og hann hafði misst hana út úr sér þegar hann tók munnstykkið út til að athuga hvað væri í gangi með tönnina. 

Og í hyldýpið sökk hún. Leiðsögumaðurinn skildi alls ekki hvað hafði gerst og var ákveðið með handapati og bendingum að fara upp á yfirborðið. Þar var honum sögð sólarsagan. Hann hélt fyrst við værum að gera at í sér. Hann er reyndur kafari, búinn að kafa meira en 2.500 sinnum, en hann hafði aldrei heyrt af svona löguðu. Að missa tönn í köfun.

Einhvern tímann er greinilega allt fyrst.

Rúnar Atli er enn sár yfir að hafa tapað tönninni á þennan hátt. Við vorum að reyna að hughreysta hann, m.a. með því að segja honum þvílíkar ýkjusögur hann gæti síðar sagt af þessum atburði. En allt kom fyrir ekki. Hundfúll var piltur.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...