28. febrúar 2013

Að læra að funda

Flesta daga minnum við börnin okkar á að hlusta á kennarann, að skila verkefnum á réttum tíma, að læra heima, ekki hlaupa á göngunum sé það bannað og endalaust fleira í þeim dúr. Að hluta til er þetta því við viljum að börnin okkar standi sig vel í skólanum, en að hluta til erum við að kenna þeim að fara eftir reglum samfélagsins. Því við vitum að ef allir fara eftir reglum þá virkar samfélagið okkar eins og við viljum að það virki.

Eitt af því sem sonur minn ungur lærir í skólanum er að vinna hópavinnu. Þar með lærir hann allskonar reglur um fundahöld, því auðvitað snýst hópavinna um að funda saman, ræða málin, komast að niðurstöðu um hvernig best sé að vinna verkefnið sem liggur fyrir, skipta verkefnum sín á milli og í kjölfarið framkvæma það sem samþykkt var. Í hópavinnunni þurfa krakkarnir alltaf að velja sér hópstjóra og ritara. Og auðvitað, auðvitað, verða allir að vera virkir í hópnum.

Mæta á fundinn.

Og af hverju?

Jú sá sem mætir ekki nær ekki að koma sínu sjónarmiði fram. Hann hefur ekki tækifæri til að hafa áhrif á hvernig verkefnið er unnið. Það er slæmt fyrir þann sem hefur skoðanir á hlutunum. Sá sem mætir ekki hefur nefnilega engan rétt á því eftirá að tuða yfir því að horft hafi verið fram hjá hans sjónarmiðum.

Sonur minn er átta ára. Og þetta kann hann og skilur.

Ég held að einhverjir fúlir flokksmenn í ónefndum stjórnmálaflokki heima á Fróni mættu taka átta ára börnin sér til fyrirmyndar.

Ef maður mætir á fund og vill hafa áhrif á ákvarðanir fundarins, þá situr maður fundinn til enda.

Ekki flókið mál.

Af hverju skyldu þeir sem höfðu öðrum og „mikilvægari“ hnöppum að hneppa gera lítið úr starfi þeirra sem fóru eftir reglum og sátu fundinn til enda?

Ég bara spyr.

1 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Ég dáist af því hvað Rúnar Atli fær frábæra kennslu og hvað þeir virðast komnir langt á undan okkur hérna heima. Mig langar að forvitnast hvort eitthvað er um börn með sérþarfir s.s. þroskaskerðingar - ofvirkni og athyglisbrest eða einhverjar aðrar fatlanir í þessum skóla. Er ekki að sjá mig vinna svona nema með einn þriðja af mínum bekk t.d. Ég þarf kannski bara að sækja um að fá að koma í skólaheimsókn til Malaví - væri það ekki góð hugmynd?
kv.
Sigga

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...