Um mánaðarmótin lá ég í nokkra daga á heilsugæslustöð hér í Lílongve. Líklega mátti ekki miklu muna að illa færi.
Þetta hófst allt föstudaginn 25. maí. Við Gulla höfðum deginum áður keyrt 240 km til Malaví-vatns, en þar var kveðjupartí fyrir vinnufélaga minn sem fluttist til Íslands núna um mánaðarmótin, en hann hefur starfað hér í fjögur ár. Þar var glatt á hjalla, spjallað og hlegið. Sumir malavísku samstarfsmanna okkar eru svo kátir og léttir í skapi að þeir slá sér á lær og taka síðan bakföll í mestu hláturrokunum. Við Gulla gistum þarna og svo átti ég eitt erindi í Mangochi-bæ. Lögðum svo af stað heim um tíuleytið.
Ferðin var tíðindalítil, en þó var vandamálamjöðmin, sú hægri, að gera mér lífið leitt. Þetta er ekki nýtt, og lenti ég nokkrum sinnum í þessu í Namibíu, er þar voru stundum dagsbíltúrar i kringum 750 km. Fór ég þá að pína mig til að taka tíu mínútna pásu á 150 km fresti. Hér í Malaví eru aksturleiðir okkar í vinnunni 200 til 260 km. Læt ég yfirleitt eitt stopp duga einhvers staðar um miðbik ferðar. Gerði það líka þarna.
Nema hvað, ég gat varla stigið í fótinn þegar heim var komið. Sem ég geng inn um dyrnar fer ég að hríðskjálfa og enda bara í bælinu. Og klukkan eitthvað í kringum þrjú eftir hádegi. Um nóttina svaf ég lítið, var kvalinn í mjöðmum og lærum. Laugardagurinn var svipaður, en ég taldi mig sjá einhverja betrumbót á ástandinu. Næsta nótt var svipuð þeirri fyrri, nema Gulla fékk miklar áhyggjur. Hún var að reyna að tala við mig, en ég svaraði víst bara út í hött og Hróa.
Stóra vandamálið í þessu var að yfirmaður minn á Íslandi var að lenda hjá okkur á sunnudeginum. Og ætlaði að vera fram til fimmtudags. Ég sagðist bara verða að dröslast í gegnum prógrammið sem ég hafði búið til fyrir hann. Í prógramminu fólst heimsókn niður að Malaví-vatni, tveir fundir þar snemma mánudags, heimsókn á héraðsspítalann og heimsókn á heilsugæslustöð 35 km eða svo frá Mangochi-bæ.
En við lögðum sem sagt af stað. Ég hafði þó vit á því að biðja einn bílstjórann okkar að keyra okkur. Það var góð ákvörðun. Ég var frekar framlágur þegar við komum á áfangastað. Við fengum okkur kvöldmat og svo í bælið. En undur og stórmerki gerðust þessa nótt. Ég svaf hana næstum alla. Flott, hugsaði ég, þetta er allt að koma til.
En á fyrsta fundi fann ég að ég gekk ekki alveg á öllum. Skyrtan mín varð rennblaut, svo blaut að ég þurfti að afsaka það fannst mér. Ég dröslaðist í gegnum næsta fund og gekk eins og uppvakingur um fæðingardeild héraðsspítalans og svo barnadeildina. En þetta hafðist. Svo hófst þessi 35 km akstur. Hann var eftir þvílíkum moldarvegi að ég hélt mér dauðahaldi og vonandi að þetta færi að enda. Ofboðslegir skorningar og holur í veginum eftir regntímann. En þetta tókst, við skoðuðum þessa stöð, þar sem meiningin er að aðstoða við byggingu mæðradeildar, en tilvonandi mæður fara nú eftir þessum moldarvegi, kannski sitjandi á bögglaberanum á leigureiðhjóli.
Svo ókum við til baka heim og komum þangað rétt fyrir myrkur. Yfirmanni mínum var hætt að lítast á blikuna. Og mér eiginlega líka. Þú verður að komast til læknis og finna út hvað þetta er, sagði hann. Við áttum fund næsta morgun með einum ráðuneytisstjóra, en svo kom nokkra tíma gat í prógramminu. Ég lofaði að fara að fundi loknum. Sem ég og gerði.
En þá nótt svaf ég aftur illa. Var á sífelldu rápi milli klósetts og vatnsflaskna. Dröslaðist svo á fundinn. Hann var ekki langur, svo fór ég heim og Gulla keyrði mig á heilsugæslustöð. Þar er einhver sem hefur vinnu af að greina blóðsýni. Já, sagði hann, þú ert með malaríu!
Malaríu! Þessi ömurlegi sjúkdómur sem berst manna á milli með hjálp moskítóflugna. Á árinu 2010 er áætlað að 655 þúsund manns hafi dáið úr þessum sjúkdómi. En tölurnar eru þó ekki öruggari en svo að menn telja sig nokkuð vissa um að rétt dánartala sé á milli 537 þús til 907 þúsund!
Ég talaði svo við lækninn. Sá sagði mér að ég þyrfti á fá vökva í æð og það tæki svo þrjá tíma.
Ég hringdi á skrifstofuna, og bað um að einhver hlypi í skarðið á næsta fundi. En vökvagjöfin og fundurinn myndu klárlega skarast. Svo lagðist ég á bekk og lá í þrjá og hálfan tíma. En ekki leið mér neitt betur. Þá var mér tilkynnt að búið væri að biðja um sjúkrabíl sem færi með mig í snatri á aðra heilsugæslustöð, sem væri betur búin til að taka við erfiðum málum...
Á hinni stöðinni var tekið vel og fagmannlega á móti mér. Mér skellt upp í rúm, teknar fleiri blóðprufur og meiri vökvi í æð.
Stóri-dómur: „Malaría 4 plús (sem er háalvarlegt) - þú ert heppinn að hún er ekki farin að ráðast á líffærin í þér. Kínín í æð er það eina sem blífur.“
Þarna lá ég í þrjá daga og þrjár nætur. Stanslaus vökvi í æð, fimm eða sex skammtar af kíníni. Kínín er mesti óþverri. Bölvað eitur, hreinlega. Enda var ég farinn að fá ofskynjanir, sá hluti hreyfast þar sem ekkert var, og var einnig með suð fyrir eyrum og ofheyrnir.
Veran þarna var ekki skemmtileg. Mér fannst ég nú vera alveg með allt á hreinu, en þegar ég lít til baka yfir þessa daga, þá var ég nú líklega ekki alveg með „fulde fem“ þennan tíma.
En þetta hafðist. Það náðist að hreinsa mig alveg af malaríunni, en slappur var ég orðinn. Fékk svo að fara heim á föstudeginum, 1. júní.
Þegar ég kom heim, þá lufsaðist ég einhvern veginn í gegnum daginn. Var á lyfjakúr fyrstu dagana, en mest voru áhrifin af kíníninu að angra mig. Ég hafði ekki nokkurt einasta þol. Gat varla fært mig milli stóla, hvað þá meir.
Svo hafði ég ekki áhuga á nokkrum einasta hlut. Sat bara og starði út í loftið. Nennti ekki að horfa á sjónvarp, nennti ekki að lesa, nennti ekki að kíkja á fréttir á netinu, nennti ekki að kveikja á tölvunni. Nennti bara ekki nokkrum sköpuðum hlut. Var bara hundfúll í skapinu.
En smátt og smátt fór ég að lagast. Fann alltaf smádagamun á mér til hins betra. Á morgun verða tvær vikur frá því ég kom heim. Ég er kominn svona 60% í lag. Vonast eftir að ein vika í viðbót geri gæfumuninn.
Svo er að vona að ég læri af reynslunni. Ef ég finn fyrir hitavellu, þá beint í blóðprufu. Ef malarían finnst strax, þá er hún eins og flensa. Nokkrir dagar heima og svo búið. Ef hún hins vegar fær að grassera í nokkra daga... ja, ég veit núna hvað gerist þá.
Gerast áskrifandi að:
Birta ummæli (Atom)
Bara alltaf í Amsterdam
Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...
-
Áðan skruppum við í göngutúr um nágrennið okkar. Ég var búinn að stúdera næstu götur svolítið á kortavef hr. Gúguls og var kominn með áætlun...
-
Rúnar Atli fékk að fara eftir skóla heim til bekkjarbróður síns, Liams. Liam og Rúnar Atli eru virkilega góðir vinir og alltaf mikill spenni...
-
Þá er komið að því að ræða viðhaldið. Nei, nei, hvað er að ykkur? Skammist ykkar. Auðvitað er allt er í fínu hjá okkur Gullu. Ja, a.m.k....
3 ummæli:
Uss, þetta er ekki skemmtileg reynsla. Gott að það endaði vel!
kveðja,
Sigga
Hjúkkusystirin í hinni heimsálfunni á barmi taugaáfalls þessa daga en allt er gott sem endar vel, þeir greinilega kunna þetta þarna úti þetta heilbrigðisstarfsfólk :)))
Svaðaleg lesning og gott að ekki fór ver. Vonandi að batinn komi fljótt og örugglega
Skrifa ummæli