12. janúar 2009

Aftur í Namibíu

Þá erum við komin aftur til Namibíu. Ferðalagið gekk eins og best verður á kosið. Alveg án áfalla. Flugum frá Keflavík kl. hálf átta í gærmorgun. Stútfull vél. Sem betur fer skráði ég okkur inn á netinu kvöldið áður og gat þá valið þau sæti sem við vildum. Lentum í Frankfurt um hádegisbil að þýskum tíma.

Í Frankfurt var brunagaddur. Nálægt 10 gráðum í mínus. Við áttum hótelherbergi pantað á flugvellinum, enda með því verra að hanga í nær ellefu klukkustundir inni á flugvellinum. Því gátum við lagt okkur, horft á sjónvarp, lesið bækur, farið í sturtu og bara slakað á fyrir flugið langa.

Svo rétt fyrir ellefu í gærkvöld, hóf Namibíuflugvélin sig á loft. Náðum við að sofa nokkuð vel þessa ferðina og lentum í Namibíu á slaginu 10 nú í morgun.

Rétt fyrir lendingu spjallaði flugstjórinn við okkur. „Veðrið í Windhoek er nokkuð gott, þó frekar svalt, 18 gráðu hiti.“ Bætti svo afsakandi við: „En hitinn mun hækka hratt.“ Já, 18 stiga hiti þykir lítið. Peysuveður.

Nokkuð löng bið var eftir töskum, en allar skiluðu sér. Ókum svo í bæinn, en við geymdum bílinn á langtímastæði á flugvellinum. Kostnaðurinn við fjögurra vikna geymslu á afgirtu svæði með stöðugri gæslu var 300 namibíudalir. U.þ.b. 4.000 kr. á síðasta gengi. Mig grunar að hærra verð sé rukkað á Keflavíkurflugvelli...

Húsið var enn á sínum stað þegar við renndum í hlað um 12 leytið.

Tuttuguogníu tímum eftir brottför úr Æsufellinu.

Aðeins.

Grasspretta hefur verið góð síðustu fjórar vikur. Sér í lagi á hellulagðri innkeyrslunni. Svo hefur eitthvað af skordýrum dáið af fæðuskorti á meðan við vorum að heiman. En heilt yfir séð, þá var aðkoman góð.

Best var þó þegar ábreiðan var dregin af sundpollinum litla. Himinblátt vatn gladdi augu okkar og greinilegt að þær fyrirbyggjandi aðgerðir sem gerðar voru í síðasta mánuði virkuðu vel. Vatnið var 30 gráðu heitt og skelltum við okkur út í laugina. Meira að segja Gulla stökk út í. Þvílík endurnæring eftir langt ferðalag.

Á morgun mæti ég í vinnu og börnin í skólann á miðvikudag. Gulla hins vegar byrjaði í skólanum í síðustu viku og því nóg hjá öllum að gera.

Engin ummæli:

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...