Í þeim ósköpum sem yfir Ísland hafa dunið síðustu vikur hef ég reynt að fylgjast vel með íslenskum fréttum. Hvort sem er í blöðum, útvarpi eða sjónvarpi. Síðustu daga hefur verið mikið spurt um sök. „Geir, er þetta ekki ykkur að kenna?“ „Jón Ásgeir, hvaða ábyrgð takið þið?“ „En þú Björgvin, hvað með Davíð, nú en Ingibjörg Sólrún..?“ o.s.frv.
Þegar öll lætin voru að byrja var ég staddur í landamærabænum Rúndú. Nokkuð stór bær á bökkum Kavangó árinnar. Er horft beint yfir til Angólu. Einn eftirmiðdag var ég á rölti í bænum. Rakst ég á fyrirtæki nokkurt, sem án efa getur hjálpað okkur að leysa úr ofangreindum spurningum.

Á skiltinu stendur nafn fyrirtækisins: „ABTRAC, Absolute Tracing, Debt Collecting & Claim Consultancy.“ Á því ylhýra má nefna fyrirtækið, „Fullkomin eftirgrennslan, skuldainnheimta og kröfuráðgjöf.“ Hvorki meira né minna.
Takið eftir að ekki eru þessir menn að eyða hagnaði hluthafana í óþarfa íburð. Leigubílar greinilega notaðir til að komast á milli staða. Engir tíu milljóna jeppar hér.
Væri ekki lag að biðja namibísk stjórnvöld um aðstoð við að (i) komast að því hvert í ósköpunum peningarnir okkar fóru, (ii) ná útistandandi skuldum heim, og (iii) krefjast réttar okkar gegn árans Bretunum? Í leiðinni hljótum við að komast að því hverjum þetta var allt saman að kenna.
Oft var þörf en nú er nauðsyn.