30. apríl 2008

Drottningarvígsla

Verður að viðurkennast að þrátt fyrir að vera sigldur maður þá hef ég nú ekki oft verið viðstaddur vígslu á drottningu. Ja, ef satt skal segja, þá man ég bara ekki eftir því að vera viðstaddur þess háttar viðburð. Verð ég því ekki að segja frá?

Allt byrjaði þetta með ferð í loftbelg. Reyndar eru loftbelgjaferðir ekki heldur hversdagsviðburður. Elli hafði pantað slíka ferð fyrir mörgum mánuðum. Útgerð þessi er frá Swakopmund, og fróðir menn segja að þetta sé besti loftbelgjaflugstaður í öllum heimi, því eyðimörkin í kringum bæinn er svo stór. Því er alltaf hægt að finna stað þar sem hagstætt er fyrir flug af þessu tagi.

Lagt var af stað um sex að morgni páskadags og ekið í austurátt. Loftbelgjastjórinn, gamall flugmaður, fæddur í Keníu og flaug víst lengi í gömlu Ródesíu - Simbabve nútímans - stöðvaði bílinn öðru hverju og sleppti litlum afmælisblöðrum upp í loftið til að meta vindátt, -hraða og kannski eitthvað meira. Loksins fann hann stað sem lofaði góðu og þá var farið að blása upp belginn.


Tók uppblásturinn góða stund, enda belgurinn stór. Síðan var prílað um borð og belgurinn lyftist frá jörðu.

Að sumu leyti minnti þetta mig á Parísarhjól. Leiðindatilfinning þegar verið er að komast af stað, en svo svífur maður bara um loftin blá og finnur ekkert fyrir hæðinni. Ja, ekki nema maður halli sér út yfir körfubrúnina og horfi beint niður.

Elli var þarna...


...og líka Gulla.


Allir skemmtu sér vel og lendingin gekk tiltölulega vel fyrir sig.

Síðan var tekið til við að taka belginn saman, en við sáum það ekki. Með okkur var nefnilega skroppið í smábíltúr og síðan var dúklagt borð fyrir okkur. Jæja, kerran var dúklögð, en morgunmaturinn sem okkur var boðið upp á stóð vel fyrir sínu. Eins og sést höfðu Gulla og Elli það ósköp gott.


En það var þetta með drottingarvígsluna. Með okkur í loftbelgnum var namibísk kona. Ósköp létt kona sem skellihló að öllu sem sagt var. Öllu. Jamm, ein af þeim.

Hvað um það, loftbelgjastjórinn komst að því að kona þessi fæddist í bæ sem heitir Grootfontein. „Hmm, þar hefur aldrei verið drottning?“ spurði stjórinn. Nei, ekki hélt konan það. „Jæja, er ekki tími til kominn að vígja drottningu þar?“ sagði kallinn, um leið og hann settist í stól og var að baksa við að opna kampavínsflösku. „Ég held að þú sért tilvalin í það.“ Og frúin flissaði og hló yfir þessari hugmynd, en var greinilega ekkert ósátt við þetta.

„Hallaðu þér þá aðeins fram á við,“ sagði stjórinn, og þegar frúin varð við þeirri beiðni skaut hann tappanum úr kampavínsflöskunni beint í afturendann á frúnni, sem þar með var vígð drottning.

Og ekkert smá hló konan, því megið þið trúa.

En ég náði fínni mynd af vígslunni.


Takið eftir tappanum, á leið í mark.

Hér er búið að súmma aðeins inn svo þið sjáið þetta betur.


Svo var skálað í kampavíninu. Og aftur og aftur.

Og klukkan ekki nema rétt um tíu að morgni.

3 ummæli:

Nafnlaus sagði...

Það kom að því að þú varst viðstaddur drottningarathöfn HEHE :) Bara smá kvitt, en ég bið að heilsa öllum og sérstaklega Gullu, og co. Kveðja Hulda

Nafnlaus sagði...

Mér sýnist Gulla ekki vera alltof sæl á svipinn -, hún er kannski öfundsjúk útí hina drottninguna, hver veit???

Nafnlaus sagði...

Ég hefði nú svo sem alveg viljað verða drottning ef það væri ekki fyrir þessa vígslu. Heldur óskemmtilegt að fá kampavínstappa á fleygiferð í óæðri endann, humm :-)

kveðja,
Gulla

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...