Eftir að koma til Íslands í ársbyrjun þá velti ég því fyrir mér hvernig ég gæti haldið áfram að hreyfa mig. Ekki heilluðu líkamsræktarstöðvarnar mig. Endaði ég á að flikka upp á reiðhjólið mitt og fór að hjóla í tíma og ótíma. Fékk algjörlega nýja sýn á höfuðborgina okkar. Fannst mér þetta mjög skemmtilegt, en gjörsamlega yfirkeyrði hjólið. Endaði ég með að skilja það eftir í Keðjuverkun hjólanýting á Skólavörðustíg daginn áður en við flugum af stað til útlanda á ný.
En, hvað skal svo gera í Lílongve?
Við Rúnar Atli vorum reyndar komnir með plan fyrir löngu síðan. Að útbúa okkar eigin leikfimiaðstöðu. Við vorum búnir að sanka að okkur ýmsum gagnlegum hlutum fyrir svona lagað. Nokkur lóð, tvo pilates-bolta, tvo þunga æfingabolta, tvær dýnur, stigpall (frá Gullu) og, rúsínuna í pylsuendandum, boxpoka og hanska.
„Og, pabbi, við setjum upp miða á vegginn þar sem stendur We love pain!“
Nefnilega. Við viljum kveljast!
House of Pain heitir aðstaðan því.
Kvalakofinn!
Í dag gengum við í að koma aðstöðunni í gagnið. Bak við húsið okkar er lítið yfirbyggt svæði sem við notum ekkert og ákváðum við að þetta væri tilvalinn staður. Ég dró upp höggborvélina og útbjó traustar festingar fyrir boxpokana og svo röðuðum við græjunum okkar upp. Enn vantar ýmislegt. Bekk til ýmissa nota og betri geymsluaðstöðu fyrir allt dótið. En það kemur.
Svo þurfti generalprufu.
Hvað annað?
Upphitunin fólst í göngutúr með hundinn. Ja, göngutúr fyrir mig en hjólatúr fyrir Rúnar Atla. Síðustu 4-500 metrana hlupum við Snúlla meira að segja. En, um leið og við komum inn á lóðina snarhemlaði hún og neitaði að hreyfa sig meir. Enda líklega í kringum áttrætt í mennskum árum...
Svo var tekið á!
Kveljast! Og kveljast svo meir! |
Kallinn góður. Vel að merkja, litli boltinn í útréttum stálörmum er 5 kg að þyngd. Geri aðrir betur. |
Hnefaleikar. Góðir taktar ef tekið er tillit til þess að hnefaleikar voru bannaðir öll mín uppvaxtarár. Kannski mætti ég þó vera aðeins fjaðurmagnaðri í fótunum. En bara aðeins... |
En hér er meistarinn mættur. Alvörutaktar, enda karate-þjálfaður náungi hér á ferð. Boxhanskar, hvað? Svoleiðis nokk er bara fyrir vælukjóa. |
Fylgt eftir alveg út í það ýtrasta. |
Og hafðu það! Einbeitingin allsvakaleg. |
2 ummæli:
Duglegir karlar þarna á ferð. Líst sérlega vel á átfittið hans Rúnars Atla :)
Ég verð alveg uppgefinn á að skoða þessar myndir.
Skrifa ummæli