22. maí 2014

Strákahelgi

Nú erum við Rúnar Atli í Nkhata Bay. Hér ætlum við að vera fram á sunnudag og njóta lífsins. Gulla var búinn að tala í einhvern tíma að hún þyrfti smáfrí frá okkur tveimur - ég meina’ða… frí frá okkur? - svo við ákváðum að skella okkur norður í land. Auðvitað virðir maður óskir eiginkonunnar, hvað annað? Nú er meiningin að sulla í Malaví-vatni og kafa svolítið.



Ég er orðinn alveg sjúkur í köfunina… og Rúnari Atla finnst hún líka spennandi. Ég skelli mér í vatnið um níuleytið í fyrramálið og á sama tíma ætlar guttinn að snorkla með einum leiðbeinandanum hér. Svo fer hann „niður“ um hádegisbilið. Kannski ég snorkli þá á meðan. Kemur allt í ljós.

En aksturinn til Nkhata Bay er langur. Tók hann okkur nærri því sex klukkustundir. Tók ég mér því sumarfrísdaga og hann fékk frí í skólanum. Við lögðum af stað skömmu eftir hádegi og hér verðum við til sunnudags.

Ferðalagið gekk eins og í sögu. Hér voru forseta-, þing- og sveitarstjórnarkosningar í fyrradag, og er höfuðborgin búin að vera á hálfum hraða síðan þá. Á leiðinni norður virtist hins vegar allt vera í sínum föstu skorðum. Eins og alltaf var endalaust af fólki á gangi meðfram þjóðveginum. Seinni helminginn af leiðinni hefði ég eiginlega þurft að skvetta úr skinnsokknum, en ég fann aldrei nógu mikið næði til þess. Malavar þurfa ekki næði til svona lagaðs - snúa bara baki við veginum og láta góssa. Ég er hins vegar of spéhræddur fyrir svoleiðis. Hélt því í mér.

Við náðum uppeftir fyrir myrkur. Fengum okkur kvöldmat og gripum svo í spil. Nú styttist í háttatíma. Vonandi gerist eitthvað skemmtilegt hjá okkur næstu tvo daga., þess virði að rata hingað inn.

4. maí 2014

Draumahelgi á Maclear höfðanum

Núna, á sunnudegi, sit ég undir stráþaki á gistiheimili sem nefnist Danforth Yachting. Rúnar Atli er að spila billjarð rétt hjá og Gulla er eitthvað að stússast í herberginu okkar. Gistiheimilið er við Malaví-vatn, við Maclear höfðann. Höfðinn er mikill ferðamannastaður og er hægt að lesa margt um hann í öllum ferðabókum um Malaví. Hann dregur víst nafn sitt af vini Davíðs Livingstones sjálfs. Ekki slæmt að eiga vini sem gera mann ódauðlegan.

Nú eru liðnar nokkrar vikur síðan ég náði mér í köfunarréttindin, en hef ekkert notað þau. Því langaði mig að kafa um þessa helgi, en á sama tíma vildi ég vera á góðu gistiheimili. Að geta notið lífsins og slakað á milli þess sem ég kafa. Ég hafði heyrt látið vel af Danforth staðnum og þótt hann sé rándýr þá ákváðum við að skella okkur.

Við sjáum ekki eftir því.

Er skemmst frá að segja að helgin hefur verið meiriháttar skemmtileg. Hér er stjanað þvílíkt við okkur að ég hef varla nokkurn tímann lent í öðru eins. Allur aðbúnaður er tipp-topp, sama hvað það er. Kokkurinn algjör snillingur. Svo er hægt að stunda allskonar vatnaíþróttir eins og hugann lystir.

Allur aðbúnaður í kringum köfun er til fyrirmyndar og þau sem um það sjá þrælklár. Ég fór niður þrisvar og í eitt skipti eftir myrkur. Var það í fyrsta sinn sem ég fer í næturköfun og var það magnað. Að vera á 10-15 metra dýpi og sjá ekkert nema það sem ljóskeilan sýnir. Skrýtið. Og svo sækja sumir fiskar í ljósið, eru greinilega forvitnir, og eru bara ofan í manni. Þetta var þrælskemmtilegt.

Svo var ótrúlegt að koma úr kafi og sjá stjörnum þakinn himininn. Ég lagðist á bakið í vatninu, starði upp í himininn og trúði varla mínum eigin augum. Glæsileg er náttúran.

Rúnar Atli var algjörlega óstöðvandi á laugardeginum. Við byrjuðum á köfun. Hann tók miklu ástfóstri við köfunarfólkið, en það er par, Dean og Cate. Sérstaklega elti hann Dean út um allt.

Rúnar Atli og Dean fara á vit ævintýra
Þeir tveir fóru saman að kafa, en Rúnari gekk illa að fara niður, því hann náði ekki að jafna þrýstinginn í eyrunum. Þeir voru því á tveggja metra dýpi að dunda sér. Sást að Rúnar Atli var ekki alveg sáttur við þetta, því hann ætlaði sér lengra niður.

Síðan þegar köfunin var búinn hamaðist hann í sundlauginn og á trampólíni. Síðan dró hann mig með sér út á blöðru, en þá liggur maður á dúk sem er strengdur yfir slöngu sem lítur út eins og slanga úr traktorsdekki. Maður heldur sér dauðahaldi í handföng og er dreginn áfram á vatninu af spíttbát. Við lágum þrír ofan á blöðrunni, ég, hann og Dean, og þeyttist ég tvisvar af. Langar leiðir alveg. Þetta var nokkuð erfitt fannst mér, því smátt og smátt gaf gripið í höndunum sig þar til ég missti takið. Var ég með strengi í fingrum og uppeftir innanverðum handleggjum. Gulla stóð sig vel á myndavélinni þegar þetta var:
Hér er þotið áfram. Á blöðrunni liggjum við þrír á fantaferð

Svarti punkturinn lengst til vinstri er ég!

Hér kemur hetjan í land, en hinir nenntu auðvitað ekkert að púkka upp á svona gaur.
Svo er það montrassinn...
Síðan fékk Rúnar Atli að sitja í með spíttbátnum þegar farið var út með aðra gesti. Við tveir prófuðum síðan tveggja manna kajak, en ég átti erfitt með að sitja í honum lengi. Var ekki alveg að gera sig fyrir stutta lærvöðva og mjaðmir.

Drengurinn fór líka með móður sinni á seglbát. Þokkalega gaman, en frekar dauft þó, fannst honum. Er að verða þvílíkur adrenalínfíkill...

Komið sér fyrir í seglbátnum

Og svo er lagt af stað
Svo fór hann og prófaði vatnaskíði. Honum tókst að lokum að komast af stað á þeim og leit vel út. Þá endastakkst hann í vatnið.

Ég er örugglega að gleyma einhverju sem drengurinn gerði.

Heyriði, svo varð hann sjúkur í billjard.
Í miðjuvasann!
Þetta var stanslaust hjá honum frá níu um morguninn til níu um kvöldið. Enda tók ekki langan tíma að sofna.

Svo núna í morgun fórum við í köfun. Ég í þá þriðju um helgina og hann í sína aðra. Þeir Dean fóru aftur saman og nú gekk mjög vel hjá þeim. Rúnar Atli náði að þrýstingsjafna eyrun og komst niður á sex metra dýpi. Enda var hann sáttur við árangurinn að þessu sinni. Ég fór hins vegar niður á nærri 20 metra dýpi og eyddi mest af tímanum á 17-18 metrum. Hún Cate lét mig kafa í gegnum þröng klettagöng, fyrst tvær mannhæðir niður, hausinn fyrst, og svo í 90 gráðu beygju og þar út. Þetta voru fyrstu hellagöng hjá mér. Og gaman. Maður þarf að fara á sérstakt hellaköfunarnámskeið ef maður vill kafa í hellum og göngum. Kannski maður fari einhvern tímann á svoleiðis námskeið.

Svo er víst einn af flottustu hellaköfunarstöðum í heimi hér á Maclear höfðanum, en á töluvert meira dýpi en ég má fara á. Maður hefur þá einhver markmið...

Sjálfsmynd á 15 metra dýpi eða svo

Cate, Rúnar Atli og Dean að fagna 6 metrunum. Lincston skipper í bakgrunni
Þetta gistiheimili er algjör draumastaður. Eigendur og starfsfólk eru með eindæmum vinaleg - komu öll út á hlað að kveðja okkur - og líður manni eins og heima hjá sér. A.m.k. skildi ég dótið mitt eftir út um allt ...

... alveg eins og heima...

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...