17. nóvember 2012

Gaman í vinnunni

Ég verð að viðurkenna að oft er gaman í vinnunni. Sumt er skemmtilegra en annað. Stundum er verið að hleypa einhverju af stokkunum eða afhenda eitthvað. Þá er yfirleitt gerður dagamunur og sungið og dansað.

Um nokkurt skeið hefur staðið yfir undirbúningur á tilraunaverkefni sem minn vinnuveitandi, Þróunarsamvinnustofnun Íslands, Matvælaáætlun Sameinuðu þjóðanna, Matvæla- og landbúnaðarstofnun S.þ. og menntamálaráðuneyti Malaví standa að. Matvælaáætlunin hefur borið hitann og þungan af þessu, en ÞSSÍ leggur til fjármagnið. Markmið verkefnisins er að koma á laggirnar heimaræktuðum skólamáltíðum í þremur skólum. Svona verkefni hafa tekist mjög vel í Brasilíu og nú reynir á hvort þetta virki í Malaví.

Í gær var verkefninu hleypt formlega af stokkunum. Eins og venjan er við svoleiðis tækifæri þurfa ýmsir að láta ljós sitt skína og halda ræður. Ég var einn þeirra. Ræðurnar, þótt góðra gjalda verðar, eru hins vegar ekki skemmtilegasti hluti svona tækifæra, heldur söngvar og dansar barnanna sem munu  njóta góðs af verkefninu. Ég sat á besta stað og var með litla myndavél sem getur tekið kvikmyndir. Nýtti ég því tækifærið og myndaði mörg skemmtiatriðin.

Hér er myndskeið sem gefur ykkur nasasjón af því sem fyrir augu mín bar.


1 ummæli:

davíð sagði...

Gott að það er gaman í vinnunni. Það er alltaf kostur.

Bara alltaf í Amsterdam

Í fyrradag flaug ég til Amsterdam. Ég var reyndar á leiðinni til Úganda, en til að komast þangað er ágætt að nota Schiphol flugvöllinn sem s...